Carl Fredriksen var sá sem stofnaði fyrstur brauðgerð á Sauðárkróki. Hann hóf brauðgerðina um 1880. Óvíst er að hann hafi verið iðnlærður bakari. Sumir telja að hann hafi verið lærður múrari. Frá Sauðárkróki fór hann til Ísafjarðar og stundaði þar brauðgerð um tíma. Frá Ísafirði fór hann 1895 til Reykjavíkur. Verður þar forstjóri bakarísins og brautryðjandi nýtískulegra starfshátta í þeirri grein, hann reisti vandaðasta brauðgerðarhús á Íslandi á þeim tíma, búið öllum bestu tækjum sem þá var völ á.

 

Fredriksen var stáliðjusamur og að sama skapi eftirgangssamur um það að unnið væri vel ,meðan vinna skyldi, en hins vegar níddist hann ekki á starfsfólkinu. Persónulega var hann drengskaparmaður hinn mesti og kom það best í ljós þegar hann dó því þá hafði hann ,sem var ógiftur og barnlaus, arfleitt starfsfólk sitt að eigum sínum sem voru þó nokkrar. Fredriksen fæddist 1849 og lést í Reykjavík 1910 þá 61.árs að aldri

Séra Jón Hallsson og fjölskylda tóku við rekstri brauðgerðarinnar á Sauðárkróki.

Árið 1890 byggði séra Jón íbúðar og vinnuhúsnæði sem stóð undir ystuklauf og fluttist inn með reksturinn sama ár. Dætur séra Jóns, Þorbjörg og Stefanía ,ásamt Einari Stefánssyni frá Reynistað, en hann var giftur Maríu systur þeirra, starfræktu þar brauðgerð um langt árabil. Hús þetta stóð um það bil sem Rafstöðin á Sauðárkróki stendur nú. Húsið var flutt niður á Sæmundargötu og er nú í eigu Sjálfsbjargar á Sauðárkróki.

 

1912-1913 kaupir Guðrún Þorsteinsdóttir brauðgerðina af fjölskyldu séra Jóns. Guðrún var áður gift Bjarna frá Vogi. 1913 ræður hún til sín Snæbjörn Sigurgeirsson frá Þingeyri við Dýrafjörð. Guðrún seldi síðan Snæbirni bakaríið nokkru seinna. Hann kom þar upp matstofu og gistiaðstöðu. Snæbjörn var mikill félagshyggjumaður. Hann var frumkvöðull skáklistarinnar á Sauðárkróki. Hann söng mikið og vann mikið að söngmálum. Snæbjörn giftist Ólínu Björnsdóttur. Ólína var dugnaðarkona og rak matsöluna. Guðjón Sigurðson kom og vann hjá þeim. Snæbjörn lést árið 1932 og tók Guðjón síðar við rekstrinum.

 

Guðjón kaupir síðan húseignina Björk við Aðalgötu og byggði síðan upp íbúðarhús og bakarí árið 1938-1939 , þar sem nú er Aðalgata 5, en húsið teiknaði Ingólfur Nikk. Til gamans má geta þess að Ingólfur hóf nám hjá Snæbirni 1921 en hætti og fór að læra trésmíði. Árið 1976 byggði Guðjón 80 fermetra geymsluhúsnæði en 1979 verða þau hjón fyrir miklu áfalli því þá brennur bakaríið og verða á því gífurlegar skemmdir. Það áfall lýsir þeim hjónum mjög vel en þá voru þau orðin um 80 ára gömul en endurnýjuðu allan tækjakost og bættu við enn einni viðbyggingunni. Guðjón rak bakaríið til áramóta 1983-84 en þá keyptu Óttar Bjarnason og Guðrún Sölvadóttir. Þau ráku bakaríið og unnu dyggilega að uppbyggingu þess þar til í september 2006. Þá kaupir Róbert Óttarsson fyrirtækið. Í dag starfa að meðaltali um 12-15 manns við bakaríið.